*

fimmtudagur, 17. júní 2021
Innlent 9. desember 2020 19:34

„Þristamúsin haldið í okkur lífinu“

„Síðast en ekki síst fórum við að selja þristamús sem hefur að vissu leyti haldið í okkur lífinu,“ segir Sigmar Vilhjálmsson.

Sveinn Ólafur Melsted
Sigmar Vilhjálmsson, annar eigenda Hlöllabáta, segir mikilvægt að fólk sjái húmorinn í því sem það er að gera, ekki síst á erfiðum tímum.
Aðsend mynd

Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson keypti sig inn í rekstur Hlöllabáta í október í fyrra og á hann helmingshlut í félaginu á móti Óla Val Steindórssyni. Frá þeim tíma hefur fyrirtækið tekið þó nokkrum breytingum og nýir veitingastaðir bæst við flóru þess. Um er að ræða Barion veitingastaðina í Mosfellsbæ og úti á Granda, og afþreyingar- og veitingastaðinn MiniGarðinn. Auk þess reka Hlöllabátar samnefnda samlokustaði, að stöðunum við Ingólfstorg í miðbænum og á Selfossi frátöldum.

Í fyrra, áður en Barion veitingastaðirnir og MiniGarðurinn urðu hluti af fyrirtækinu, veltu Hlöllabátar 374 milljónum króna. Sigmar segir að í kjölfar ofangreindra breytinga hafi áætlanir gert ráð fyrir að velta félagsins yrði á bilinu 1.800 til 1.900 milljónir króna á ársgrundvelli. Covid-19 faraldurinn hefur hins vegar sett strik í reikninginn og nam velta félagsins 670 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og segir Sigmar stefna í að velta ársins 2020 „muni enda rétt sunnan megin við milljarðinn."

„Minigarðurinn hefur í raun ekki enn fengið að njóta þess sem hann hefur upp á að bjóða vegna samkomutakmarkana og má segja slíkt hið sama um Barion Bryggjuna. Það er því mikil tilhlökkun í okkur fyrir því að geta loks fullnýtt möguleika staðanna að faraldri loknum."

Að sögn Sigmars hefur honum þótt það sárasta við faraldurinn að geta ekki boðið upp á öll þau störf sem fyrirtækið gæti boðið upp á í hefðbundnu árferði. „Stór hluti starfsfólks okkar er í hlutastarfi og vaktavinnu. Umrætt starfsfólk hefur því miður verið kallað lítið sem ekkert út á vakt vegna ástandsins. Við höfum lagt áherslu á að standa vörð um starfsemina og höfum náð með nýstárlegum aðgerðum að halda veltunni gangandi og rekstrinum réttu megin við strikið. Okkar sýn gengur svolítið út á að þetta sé erfiða árið þar sem við náðum að halda velli og svo vonumst við til þess að geta tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið þegar faraldurinn heyrir sögunni til."

Vörur í verslanir, mömmumatur og þristamús

Sigmar útskýrir að ofangreindar nýstárlegu aðgerðir til að halda rekstrinum gangandi hafi verið margþættar. „Matvöruverslun hefur aukist verulega í faraldrinum og við fórum í samstarf með Samkaup um að selja hluta af okkar afurðum frá Barion og Hlöllabátum í þeirra verslunum. Þannig bættist hliðartekjustofn við starfsemi okkar og hefur þetta samstarf gefist vel. Auk þess fórum við að bjóða upp á mömmumat í hádeginu á Barion stöðunum, sem er ekta heimilismatur. Við fundum fyrir eftirspurn eftir því úti í samfélaginu og mömmumaturinn hefur notið mikilla vinsælda."

En að öðrum aðgerðum ólöstuðum segir Sigmar að sala á hinni svokölluðu þristamús hafi reynst sú mikilvægasta. „Síðast en ekki síst fórum við að selja þristamús sem hefur að vissu leyti haldið í okkur lífinu, enda hefur hún notið og nýtur enn mikilla vinsælda," segir Sigmar og bætir við að það sé mikilvægt að fólk sjái húmorinn í því sem það er að gera, ekki síst á erfiðum tímum. „Þegar við fórum af stað inn í þetta ár hefði mig ekki órað fyrir því að þristamús yrði ein af okkar helstu tekjulindum," segir Sigmar kíminn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Bjarni Benediktsson talar um mikilvægi skattalegra ívilnana  til starfsemi og gjafa til almannaheillasamtaka.
  • Kynfræðsluapp í poppmyndastíl vann til verðlauna í Danmörku en tveir Íslendingar eru meðal þeirra sem að því standa.
  • Gert er grein fyrir þróun á raungengi krónunnar.
  • Samkaup hefur gert stefnumarkandi samstarfssamning við verslunarrisann Coop.
  • Ritstjóri Túrista segir mestu óvissu Icelandair liggja í Bandaríkjamarkaði.
  • Nýir eigendur Borgunar vilja að fyrirtækið verði leiðandi í fjártækni í stað þess að vera bakendaþjónusta fyrir banka.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um Mannréttindadómstól Evrópu.
  • Óðinn skrifar um fjárfestingu og eyðslu hins opinbera.