Bretar voru fjölmennastir eða tæpur þriðjungur þeirra 66 þúsund erlendu ferðamanna sem fór frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í síðasta mánuði. Um verulega fjölgun ferðamanna er að ræða eða um 35,3% á milli ára, samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Ferðamálastofa segir árið fara óvenju vel af stað því í janúar hafi ferðamönnum fjölgað um 40,1% á milli ára og um 31,2% í febrúar. Á hæla Bretum komu hingað ferðamenn frá Bandaríkjunum en þeir voru 18,5% fjöldans sem hingað kom. Þar á eftir komu Norðmenn, Þjóðverjar, Frakkar, Danir, Kanadamenn, Svíar, Hollendingar og Japanir sem voru 2,4% heildarfjölda erlendra ferðamanna. Ferðamálastofa segir ferðamönnum hafa fjölga gríðarlega frá því talningar í Flugsstöð Leifs Eiríkssonar hófust árið 2002 og séu erlendir ferðamenn nú þrefalt fleiri en þá.