Frá því að Marel undirritaði Jafnréttissáttmala Sameinuðu þjóðanna (e. Women‘s Empowerment Principles) í nóvember síðastliðnum hefur fyrirtækið unnið markvisst að því að auka hlut kvenna í stjórnunar- og sérfræðistörfum. Í tilkynningu frá Marel segir að átakið hafi skilað sér í þremur nýráðningum. „Þar til viðbótar má nefna að í þessum mánuði var gengið frá ráðningu á fyrsta kvenkyns framleiðslustjóra fyrirtækisins á Íslandi og mun hún hefja störf í júní næstkomandi. Starfið heyrir undir framkvæmdastjóra framleiðslu,“ segir í tilkynningu.

Theo Hoen, forstjóri Marel, segir: „Þetta er hagsmunamál fyrir okkur því að með því að tryggja jafnrétti hjá Marel náum við frekar að laða að bestu starfskraftana hverju sinni. Stöðug nýsköpun er einn af hornsteinum okkar hjá Marel og við vitum að bestu hugmyndirnar spretta uppúr teymisvinnu. En það er ekki nóg að þekkingin sé til staðar í hópnum. Ef það skortir á fjölbreytileika hópsins er líklegt að afraksturinn verði fyrirsjáanlegur.“

Nýráðningar á fyrsta ársfjórðungi:

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir
Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)


Verkefnastjóri: Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri og heyrir undir framkvæmdastjórn Marel. Guðbjörg mun koma að gerð og framkvæmd áætlana á sviði rannsókna og þróunar, auk þess að greina möguleg vaxtartækifæri fyrir fyrirtækið. Guðbjörg lauk MS gráðu í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands árið 2007 og þar áður BS í vélaverkfræði. Hún starfaði áður sem sérfræðingur í greiningu hjá Eyri Invest og við hugverkarétt á lögfræðistofunni Sigurjónsson og Thor.

Anna Thrap Olsen
Anna Thrap Olsen
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Framkvæmdastjóri í Frakklandi: Þann 1. mars sl. tók Anna Thrap Olsen til starfa sem framkvæmdastjóri Marel í Frakklandi. Anna var áður í forsvari fyrir viðskiptaþróun hjá Tetra Pak sem er leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki í pökkunar- og vinnslukerfum fyrir drykkjarvörur. Anna hefur einnig gegnt stjórnunarstöðum hjá Kodak. Hún lauk MBA gráðu frá Essec Business School í París þar sem hún býr ásamt fjölskyldu sinni.

Elísabet Austmann
Elísabet Austmann
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sýningarstjóri: Elísabet Austmann Ingimundardóttir hefur verið ráðin sýningarstjóri á markaðssviði þar sem hún mun hafa umsjón með þátttöku Marel í alþjóðlegum vöru- og iðnaðarsýningum. Elísabet gegndi áður stöðu sölu- og markaðsstjóra hjá útgáfufélaginu Birtíngi. Þar áður var hún sölu- og markaðsstjóri hjá heildsölunni Sportís og vörumerkjastjóri hjá Glitni. Elísabet lauk MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og BSc gráðu í alþjóðlegri markaðssetningu frá Tækniháskóla Íslands árið 2003.