Nýi Landsbankinn og íslenska ríkið hafa eignast hlut Landskila, félags þrotabús Landsbanka Íslands, í Landsbankanum. Alls áttu Landskil 18,67% hlut. Samkvæmt samkomulagi rennur stærstur hlutinn til ríkisins og 2% af hlutafjár rennur til Landsbankans. Gengið var frá uppgjörinu milli gamla og nýja bankans í dag. Í tilkynningu um samkomulagið segir að með þessu sé lokið beinum afskiptum LBI hf. af stjórnun Landsbankans.

Samkomulagið felur í sér að Landsbankinn gefur út skuldabréf til LBI (þrotabúsins) að andvirði 92 milljarðar króna í erlendri mynt. Bréfið er hluti af kaupverði þeirra eigna sem Landsbankinn keypti af LBI við stofnun nýja bankans. Það samkomulag var undirritað í desember 2009. Skilyrta skuldabréfið kemur til viðbótar við öðru skuldabréfi sem Landsbankinn gaf út árið 2009 að andvirði milljarðar króna. Það er einnig í erlendri mynt. Landsbankinn endurgreiddi rúmlega 70 milljarða inn á lánið um mitt síðasta ári.

„Skuldabréfin á milli gamla og nýja Landsbankans eru byggð á samkomulagi sem gerð voru á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins frá október 2008 um tilflutning á eignum og skuldum til nýja bankans. Fjárhæð skuldabréfanna réðist af mismun á virði þeirra eigna og skulda sem flutt voru. Alþingi heimilaði fjármálaráðherra að staðfesta samningana fyrir hönd íslenska ríkisins með sérstökum lögum,“ segir í tilkynningu um samkomulagið sem undirrritað var í dag.

Bókfært virði eignarhlutar ríkisins í Landsbankanum hf. hefur aukist um 97 milljarða króna frá haustinu 2008. Að frádregnum fjármagnskostnaði nemur ávinningur ríkisins 55 milljörðum króna.

Í tilkynningunni er haft eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, að þetta sé mikilvægur áfangi fyrir bankann og eigendur hans. „Ríkið fær í dag afhentan mjög verðmætan eignarhlut í Landsbankanum án þess að greiða fyrir hann. Bókfært verðmæti eignarhlutar ríkisins hefur hækkað töluvert og er ávinningur ríkisins eftir fjármagnskostnað 55 milljarðar króna. Það munar um minna. Eignasafn bankans verður æ sterkara og framundan er að tryggja fjárhagsstöðu enn frekar með hagkvæmri endurfjármögnun erlendra lána bankans.“

Í tilkynningunni er nánar greint frá samkomulaginu og útgáfu skilyrta skuldabréfsins. Um það segir:

  • Skuldabréfið er í EUR, USD og GBP, með ársfjórðungslegum afborgunum, fyrsti gjalddagi höfuðstóls var 2014 og lokagjalddagi er 2018. Landsbankinn mun greiða næst af bréfinu 2015 þar sem hann greiddi á öðrum ársfjórðungi 2012 fyrstu fimm gjalddaga bréfsins með fyrirframgreiðslu til LBI hf.
  • Skilyrta skuldabréfið var tengt mögulegri virðisaukningu á hluta af lánasafni Landsbankans. Útgefið verðmæti þess er 92 milljarðar króna og vaxtakjör og afborganaferli er hið sama og á skuldabréfi „A“. Bókfærð staða skilyrta skuldabréfsins m.v. 31. desember 2012 byggist á mati erlendra sérfræðinga og bréfið ber vexti frá ársbyrjun ársins 2013.
  • Í samkomulagi fjármálaráðuneytisins, Landsbankans hf. og LBI hf. frá desember 2009 fólst jafnframt að LBI hf. myndi halda 18,67% hlut í Landsbankanum þar til verðmæti skilyrta skuldabréfsins væri ljóst. Síðan myndi LBI hf. láta þann eignarhlut af hendi í hlutfalli af endanlegu mati á tilgreindum eignum. Endanlegt mat liggur nú fyrir af hendi óháðra matsaðila og verður skilyrta skuldabréfið gefið út miðað við fulla fjárhæð, samtals 92 milljarða króna og því lætur LBI hf. af hendi öll hlutabréfin í Landsbankanum. Eftir eignabreytingarnar á íslenska ríkið 98% hlut í Landsbankanum en Landsbankinn sjálfur hefur tekið við 2% eignarhlut. Þeim eignarhlut fylgja þau skilyrði að honum verði dreift til starfsmanna en fyrirkomulag þess liggur ekki fyrir. Slíkt fyrirkomulag er háð samþykki hluthafafundar Landsbankans auk þess sem hún þarf að vera í samræmi við reglur FME um slíkar ráðstafanir.
  • Ríkissjóður greiddi fyrir sinn hlut í Landsbankanum með útgáfu skuldabréfs að nafnvirði 122 milljarða króna haustið 2008. Frá þeim tíma hefur ríkissjóður greitt um 36,5 milljarða í vexti af skuldabréfinu en núvirði vaxtakostnaðarins er um 41,5 milljarðar króna. Hlutdeild ríkisins í bókfærðu eigin fé hefur aukist um 97 milljarða króna frá stofnun bankans,að teknu tilliti til hlutabréfa sem nú renna til ríkisins frá LBI hf. við útgáfu skilyrta skuldabréfsins. Ávinningur ríkisins er því jákvæður um 55 milljarða króna þegar tekið hefur verið tillit til fjármagnskostnaðar.
  • Þessi mikli ávinningur skýrist af breytingum á verðmæti lánasafns fyrirtækja en á haustdögum 2008 ríkti mikil óvissa um stöðu þeirra og vegna þess var endanlegt kaupverð eignasafns bankans háð þeim árangri sem endurskipulagning eigna myndi skila. Nú liggur fyrir endanlegt uppgjör, byggt á mati óháðra sérfræðinga frá Deloitte, og niðurstaða þess er að allur eignarhluti gamla bankans gengur nú til ríkisins og Landsbankans hf. án þess að frekara endurgjald komi fyrir.