*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Erlent 5. september 2016 18:15

Þrýsta á Theresu May

Theresa May hefur fengið að finna fyrir auknum þrýstingi frá því að hún tók við störfum sem forsætisráðherra Bretlands.

Ritstjórn
Malcolm Turnbunbull forsætisráðherra Ástralíu og Theresa May forsætisráðherra Bretlands á G20 ráðstefnunni í Kína

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fann heldur betur fyrir þrýstingi á G20 fundinum í Kína. Samkvæmt fréttum The Independent vilja æðstu leiðtogar heimsins sjá hana drífa útgöngu úr Evrópusambandinu af.

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um útgöngu úr Evrópusambandinu hefur heldur betur vakið athygli. Efnahagsleg óvissa hefur skapast í kjölfar úrslitanna og vilja helstu leiðtogar heimsins sjá nýju ríkisstjórn Bretlands taka ákvörðun um framtíð lands og þjóðar.

Carlo Calenda, viðskiptaráðherra Ítala, var sérstaklega harðorðaður í hennar garð. Hann telur það mikla tímasóun að ráðast í flóknar samningaviðræður við landið og vill sjá Breta taka ákvörðun. Að hans mati er það annað hvort fjórfrelsið eða ekki. Ef Bretar vilja ekki heimila frjálsa fólksflutninga, þá eiga þeir ekki að fá aðgang að innri markaði Evrópu.

Pressan kom þó ekki einungis frá Ítölum. Samkvæmt The Independent eru Japanir einnig hræddir við framhaldið. Sendiherra Japana í Bretlandi, er þeirrar skoðunar að aðgengi að innri markaðinum, sé algjört lykilatriði fyrir Breta og öll þau alþjóðlegu fyrirtæki sem þaðan starfa.

May hefur lýst því yfir að hún vilji taka stefnu í átt að auknu viðskiptafrelsi. Leiðtogar Indlands, Mexíkó, Suður Kóreu, Singapúr og Ástralíu hafa allir lýst því yfir að þeir vilji auka viðskipti við Breta.

Stikkorð: Bretland Ítalía G20