*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 2. mars 2017 14:24

Þurfa ekki lengur háskólapróf

FME hefur breytt reglum um framkvæmd hæfnismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fjármálaeftirlitið hefur breytt reglum um hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja þannig að skilyrði um háskólapróf sem nýtist í starfi hefur verið fellt niður.

Gerð er áfram krafa um þekkingu og reynslu viðkomandi eða að þeir hafi lokið námi sem nýtist í starfi. Þetta kemur fram í frétt Fjármálaeftirlitsins.

Þá er sérstaklega tilgreint að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skuli hafa þekkingu á áhættuþáttum í starfsemi fjármálafyrirtækis.

Hæfisskilyrði um gott orðspor kemur í stað hæfisskilyrðis um óflekkað mannorð og að stjórnarmaður hafi ekki sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni hans.

Hinar nýju reglur taka mið af þeim lagabreytingum sem hér um ræðir, reynslu Fjármálaeftirlitsins af beitingu eldri reglna, þróun og fyrirmyndum frá Evrópu sem og þeim athugasemdum sem fram komu í umsagnarferli.