Þeir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, og Hilmar Pétur Valgarðsson, fjármálastjóri félagsins, sluppu við spurningar um kauprétti lykilstjórnenda þegar þeir sátu fyrir svörum um Eimskip, hlutafjárútboð þess og aðdraganda skráningar á markað, á fundi VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, í hádeginu.

Sex lykilstjórnendur Eimskips sömdu um það fyrir tveimur árum að fá að kaupa hlutabréf í félaginu sem jafngilti um 4% hlut fyrir 135 krónur á hlut. Það er 35% lægra verð en bréfin eru boðin almennum fjárfestum í hlutafjárútboðinu sem nú stendur yfir. Miðað við útboðsgengi hlutabréfa Eimskip nam verðmæti þeirra í kringum einum milljarði króna. Á meðal stjórnendanna voru Gylfi og Hilmar.

Ef frá eru taldar spurningar fundarstjóra bárust aðeins tvær spurningar frá gestum úr sal á hádegisfundinum í dag. Þær beindust báðar að Gylfa, sem var spurður að því hvað skýri fall Eimskips áður en það fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og hvaða tækifæri stjórnendur Eimskips sjái.

Kaupréttarsamningarnir komust í hámæli fyrir helgi þegar nokkrir lífeyrissjóðir mótmæltu þeim og ákváðu að taka ekki þátt í hlutafjárútboði Eimskips í síðustu viku. Fallið var frá kaupréttarsamningunum fyrir helgi.