Evrópski seðlabankinn tilkynnti að stýrivextir hans yrðu áfram óbreyttir, en þeir hafa nú verið fastir í 1% í hálfft ár. Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, sagði að óvissan í evrópsku efnahagslífi hefði aukist, áhættan sömuleiðis, þjóðarframleiðsla á evrusvæðinu væri í járnum og ekki að sjá að ástandið myndi breytast á næstunni.

Í ljósi þeirrar ræðu eiga margir erfitt með að átta sig á því hvers vegna í ósköpunum stýrivextirnir voru látnir eiga sig. Þar á meðal er Christine Lagarde, forstöðukona Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hvatti með óvenjuopinskáum hætti til vaxtalækkunar í fyrradag.

Draghi hefur vissulega nokkuð til síns máls að hnikun á peningamálastefnu bankans geti ein og sér ekki bjargað málum eða komið í stað aðgerða á öðrum vettvangi, en aðgerðaleysi á öllum vígstöðvum er ekki til neins líklegt heldur.

Vandi evrusvæðisins hefur grafið um sig á undanförnum þremur árum og hann versnar sífellt, eins og m.a. hefur verið drepið á á þessum síðum. Forystumenn evrusvæðisins og Evrópusambandsins hafa hins vegar verið ófáanlegir til þess að viðurkenna að í óefni sé komið, að kerfislægur vandi hrjái evrusvæðið, sem verði ekki lagaður með smáskammtalækningum.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.