Marorka hefur lokið við að fjármagna áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Það er þýski fjárfestingarsjóðurinn Mayfair sem kemur með aukið fjármagn inn í félagið il að styðja við styrkingu á sölu og dreifineti félagsins á erlendum vettvangi. Mayfair verður í kjölfarið leiðandi hluthafi en sjóðurinn kom á sínum tíma inn í hluthafahópinn þegar hann keypti 14,9% hlut af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins í mars 2012.

Bjarki A. Brynjarsson, forstjóri Marorku, fór yfir það í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir tveimur mánuðum að verið væri að vinna í fjármögnun áframhaldandi vaxtar. „Þetta eru kannski engir risa fjármunir á alþjóðlegum mælikvarða en þetta eru einhverjar milljónir evra í þessari uppbyggingu,“ sagði Bjarki í viðtalinu.

Að sögn Bjarka ætti félagið að vera vel í stakk búið til að takast á við þau uppbyggingarverkefni sem hafa verið í undirbúningi á síðustu mánuðum. „Það er markmið okkar að grípa þau miklu tækifæri sem felast í því aðstoða skipafélög við að ná árangri í orkusparnaði og leita á sama tíma leiða til þess að tryggja að umhverfi okkar verði vel varðvætt í framtíðinni" segir Bjarki í tengslum við fjármögnunina.

„Ég er afskaplega glaður að sjá Marorku halda áfram að dafna og vaxa og þá miklu trú sem hluthafar hafa á fyrirtækinu og starfsfólki þess. Fjármögnun er okkur afar mikilvæg. Vörur okkar og þjónustu sem við höfum þróað frá grunni er á heimsmælikvarða og getum við nú styrkt sölukerfi og dreifingu víða um heim til að mæta aukinni eftirspurn," segir Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, stjórnarformaður Marorku og stofnandi fyrirtækisins um fjármögnunina.