Atli Freyr Einarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri DHL Express í Danmörku. DHL Express í Danmörku er 500 manna fyrirtæki sem veltir árlega 9 milljörðum króna. Fyrirtækið er eitt það allra stærsta á hraðflutningsmarkaði í Skandinavíu. Atli Freyr tekur til starfa hjá danska fyrirtækinu 1. janúar 2017.

Atli hefur unnið allan sinn starfsferil innan DHL og sem framkvæmdastjóri DHL á Íslandi síðastliðin sex ár. Saga Atla Freys innan DHL á Íslandi er um margt áhugaverð. Hann hóf störf hjá fyrirtækinu sem bílstjóri árið 1997. Meðfram háskólanámi vann hann í útkeyrslu og í þjónustudeild í hlutastarfi.

Eftir útskrift úr háskóla færði hann sig yfir í söludeild fyrirtækisins og var gerður að sölu- og markaðsstjóra árið 2005. Frá og með árinu 2010 hefur Atli gengt stöðu framkvæmdastjóra DHL Express Íslandi.  Staða DHL á Íslandi hefur verið sterk og markaðshlutdeild þeirra framúrskarandi. Sérstaklega hefur tekist vel til við að snúa erfiðri stöðu eftir hrun fyrirtækinu í vil.

„Þetta er auðvitað mikil áskorun en umfram allt skemmtilegt tækifæri sem ekki er hægt að láta fram hjá sér fara,“ segir Atli Freyr. DHL á Íslandi hafi gengið vel og náð markmiðum sínum á hörðum samkeppnismarkaði. Þekkingin á flutningamarkaðnum væri mjög góð og samkeppnishæf við það besta sem gerist erlendis.