"Það er verið að gera ákveðnar grundvallarbreytingar sem ég held að séu til bóta," segir Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar um tillögur um hert ákvæði varðandi yfirtökuskyldu, sem er að finna í nýju frumvarpi viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti. Helsta breytingin er að skýrari ákvæði eru um að skylda til að gera yfirtökutilboð geti myndast vegna samstarfs milli aðila.

"Það sem mestu skiptir er að sönnunarbyrði er snúið við varðandi ákveðan þætti," segir Þórður. "Samkvæmt frumvarpinu þarf hlutaðeigandi í tilteknum tilvikum að sanna að ekki

sé um samstarf að ræða. Í því sambandi eru meðal annars sett ákveðin mörk um eignatengsl, sem miðast við þriðjungs eignaraðild, en þau mörk hafa ekki verið skilgreind áður."

Algengustu ágreiningsmálin

Þórður segist telja að þarna sé tvímælalaust um bragarbót að ræða. "Það er mikilvægt að hafa þessi mál skýr og greinargóð. Ég bendi á að á undanförnum misserum og árum hafa komið hér upp nokkur mál um yfirtökuskyldu sem hafa valdið ákveðnum óróa á markaðinum -- yfirtökur eru reyndar algengustu ágreiningsmálin ásamt innherjamálum. Ég held að það ætti að vera hægt að koma í veg fyrir hluta af þessum málum. Það varða ávallt einhver matsatriði en með þessu er reynt að fækka þeim."

Þórður segir að þrennt sé umdeilt varðandi yfirtökuskyldu: Hve hátt verð eigi að greiða, hve náin tengsl eigi að miða við þegar eignarhluti tveggja eða fleiri félaga er lagður saman, og loks við hvaða eignarhlut yfirtökuskyldan eigi að myndast. Í Bretlandi, Þýskalandi og Svíþjóð er miðað við 30% atkvæðavægi, í Noregi 40% og í Danmörku oftast 50%.

"Þeir sem vilja fara neðarlega með þessi mörk vilja að félögin séu í sem dreifðastri eigu, en hinir segja allt í lagi að kjölfestufjárfestar ráði mjög miklu. Fræðilega hefur ekki verið sýnt fram á að annað módelið sé betra en hitt, aðalatriðið er að menn séu upplýstir um þær reglur sem gilda," segir Þórður.

Ákvæði gildandi laga hafa um margt þótt óljós. Jóhannes Sigurðsson prófessor við Háskólann í Reykjavík benti á nokkur atriði á fundi í skólanum fyrir helgi: Ekki væri skýrt í gildandi lögum hvað fælist í "óbeinni yfirtöku"; sækja þyrfti skilgreiningar á skilyrðum þess að um yfirráð væri að ræða í önnur lög, þ.e. lög um hlutafélög (samstæðuhugtakið) og lög um ársreikninga (skilgreining á hlutdeildarfélagi); og sönnunarstaða vegna samninga og samstarfs væri erfið. Samkvæmt frumvarpinu yrði hins vegar sönnunarbyrðin léttari vegna nýrrar skilgreiningar á samráði, en auk þess skýrði frumvarpið regluna um yfirráð og gerði hana ákveðnari.

Jákvætt að taka af vafa

"Ákvæði laganna hafa þótt óskýr, menn hafa deilt um hvernig beri að túlka þau," segir Skarphéðinn Berg Steinarsson framkvæmdastjóri innlendra fjárfestinga hjá Baugi Group. Hann segir að atvinnulífið vilji hafa skýrar reglur og ekki óþarflega íþyngjandi, en hann hafi ekki myndað sér skoðun á hvort tillögurnar feli í sér óþarflega íþyngjandi reglur. "En menn þurfa að vita að hverju þeir ganga í þessum efnum, það á að vera alveg skýrt hvenær er um yfirtökuskyldu að ræða og hvenær ekki, huglægt mat á að vera óþarft. Ef þetta verður til þess að taka af allan vafa þá er það af hinu góða," segir Skarphéðinn Berg.

Óháð lagabreytingunni stendur Kauphöllin að undirbúningi þess að stofna yfirtökunefnd eða yfirtökuráð, en fyrirmyndin er að hluta til sótt til "Take-over Panel" sem starfar í Bretlandi. "Þetta hefur ekki endanlega verið ákveðið, en slíkt ráð gæti styrkt þennan þátt enn frekar," segir Þórður Friðjónsson.

Önnur breyting sem í lagafrumvarpinu felst er að við ákvörðun á tilboðsverði við yfirtöku skuli taka tillit til hæsta verðs sem samstarfsaðilar tilboðsgjafa hafa greitt síðustu sex mánuði áður en tilboð var sett fram.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að nefndin sem samdi það mælir með því að 40%-mark yfirtökuskyldu verði endurskoðað þegar reynsla er fengin á aðrar breytingar, enda sé ljóst að hægt sé að ná yfirráðum í félagi með minna en 40% atkvæðavægi.

Nýju ákvæðin og þau sem nú gilda eru birt í heild hér að neðan. Rétt er að árétta að upptalning á dæmum um tengsl sem fela í sér samstarf er ekki tæmandi og því er "ekki unnt að gagnálykta" út frá henni, eins og segir í greinargerðinni.