„Nú hef ég legið undir þessu teppi sem lífeyrissjóðurinn sendi mér óumbeðið og komin undan því með eftirfarandi niðurstöðu. Þetta umrædda teppi var greinilega sent til að breiða yfir þær 70 milljónir sem Sigurður Einarsson fékk fyrir að tapa fjármunum mínum í lífeyrissjóðnum sem Kaupþing rekur sl. ár. Eða sópa skömminni undir teppið,“ skrifar Sigfríður Þórisdóttir í opnu bréfi sem hún sendi til Kaupþings og Frjálsa lífeyrissjóðsins í nóvember 2003. Bréfið birtist í Morgunblaðinu 26. nóvember 2003.

Sigríður heldur áfram:

„Sá kaupréttarsamningur sem Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson gerðu í sumar sýnir enn og aftur hve flinkir þeir eru að græða fyrir sjálfan sig - og alltaf „án-árangurstengt“. Þ.e. eins og alþjóð veit, ekki var hægt að tapa á þessum samningi, þótt allt færi til andskotans næstu fimm árin. Flinkir segi ég, en ber það til baka. Samningurinn ber vott um slægð og slægð er hugsun og aðalsmerki krimma. Slægð er misnotkun á greind. Slægð í meðferð fjármuna stýrir engri lukku, nema skammtímalukku. Hvað skyldu nú þessi ágætu menn gera við allt sitt fé? Styrkja þeir börn úti í heimi hjá t.d. ABC-hjálparstarfi eða SOS-barnahjálp? Það kostar t.d. ekki nema um 1.500- 2.500 kr. á mánuði að koma barni til manns og menntunar í snauðu þróunarlandi, vegna græðgi annars staðar á hnettinum. Styrkja þeir Amnesty International reglulega, já bara einhvers staðar þar sem siðferði skortir og kúgunar og vanþróunar gætir, vegna græðgi okkar Vesturlandabúa?“

Til á prenti birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum Tölublöð.