"Þetta tilboðsverð er í lægri kantinum að okkar mati," segir greiningardeild Glitnis um yfirtökutilboð Novator á Actavis. "Mikil samþjöppun á sér stað í samheitalyfjageiranum á heimsvísu og verðmargfaldarar í undaförnum yfirtökum eru háir."  Hún segir að yfirtökuverðið eiga að liggja á bilinu 95-100 krónur á hlut.

Novator, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, leggur fram tilboðið en félög tengd Novator eiga samanlagt um 38,5% í félaginu. Tilboðið hljóðar upp á 0,98 EUR á hlut eða 85,23 krónur á hlut. Lokaverð á bréfum félagsins í gær var 78,2 krónur á hlut. Til samanburðar metur greiningardeild Glitnis félagið á 87,7 krónur á hlut "og er tilboðsverðið því nálægt því sem að við teljum að endurspegli rekstrarvirði félagsins," segir greiningardeildin.

Hún segir að skemmst er að minnast þess að Actavis hætti við að reyna við yfirtöku á Merck í síðustu viku vegna þess að stjórnendur töldu ekki stætt á því að borga of hátt verð. "Það sama átti sér stað seint á síðasta ári þegar að Actavis hætti við að reyna yfirtöku á króatíska félaginu Pliva.

Við höfum áður sagt að við teljum að verði Actavis yfirtekið þá muni yfirtökuverðið líklega liggja á bilinu 95-100 krónur á hlut. Það verðbil endurspeglar líka virði rekstrarins m.v. þær forsendur sem að stjórnendur Actavis gefa sér um reksturinn á næstu árum. Við reiknum með að aðrir fjárfestar eða lyfjafyrirtæki komi fjótlega inn í tilboðsferlið og bjóði hærra verð. Við mælum því að svo stöddu ekki með að fjárfestar taki tilboði Novator," segir greiningardeildin.