Toyota í Evrópu hefur tilkynnt um innköllun á nýjustu útgáfu af Prius. Alls verða 52.903 bílar kallaðir inn vegna uppfærslu sem gera þarf á hugbúnaði í ABS-bremsukerfi bílsins. Þegar hefur verið haft samband við eigendur þeirra bíla sem kalla þarf inn hér á landi og þeir boðaðir með bíla sína til uppfærslu að því er kemur fram í tilkynningu.

Viðgerðin er framkvæmd vegna tilkynninga um óstöðuga hemlunartilfinningu við jafna en ákveðna hemlun á lausu vegyfirborði þegar ABS hemlastýrikerfið yfirtekur hemlastjórnunina. Viðgerðin felst í uppfærslu á forriti í ABS stjórntölvu. Uppfærða forritið flýtir innkomu ABS stjórnunarinnar þegar hemlað er á lausu vegyfirborði.

Engin slys hafa orðið í Evrópu vegna þessa svo vitað sé. Innköllunin á ekki við um eldri gerðir Prius, aðrar gerðir af Toyota eða Lexus.