„Það kom skýrt fram að það væri hvorki lagalega né pólitískt hægt að taka upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið,” sagði Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, einn nefndarmanna í Evrópunefndar ríkisstjórnarinnar, í samtali við Viðskiptablaðið, að loknum fundi með Joaquin Almunia, framkvæmdastjóra efnahagsmála hjá ESB, í Brussel í gærmorgun.

Birkir sagði að Almunia hefði farið yfir það ferli sem færi í gang ef Íslendingar tækju ákvörðun um að ganga í ESB og hvernig staðið yrði að því að taka upp nýjan gjaldmiðil í framhaldi af slíkri ákvörðun.

„Þeir fundir sem við höfum átt hér hafa sannfært mig um að það sé algjörlega óraunhæft að taka upp evru án þess að ganga í ESB,” sagði Birkir Jón.

„Í raun hefur sú hugmynd Björns Bjarnasonar verið slegin út af borðinu af helstu lykilmönnum ESB,” sagði Birkir Jón.

„Ég er enn sannfærðari um það en áður að það er ekkert annað í stöðunni en að hefja aðildarviðræður,” sagði Birkir og kvaðst telja slíkar viðræður eitt af brýnustu hagsmunamálum Íslands um þessar mundir.

Hann sagðist ætla að taka málið upp á vettvangi Alþingis í haust.

„Ég mun leggja fram þingsályktunartillögu í haust um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna aðildarviðræðna um Evrópusambandið,” sagði Birkir Jón.