*

fimmtudagur, 14. nóvember 2019
Innlent 27. september 2019 15:43

Tillaga um bankasölu tilbúin

Bankasýslan er tilbúin með tillögu til fjármálaráðherra um fyrirkomulag á sölu ríkisins á Íslandsbanka.

Ritstjórn
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, segir beðið eftir heppilegum tíma til að leggja tillöguna fram.
Haraldur Guðjónsson

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, staðfestir við fréttastofu Rúv í dag að búið sé að vinna tillögur um hvernig eigi að standa að sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

„Það má segja að tillagan sé tilbúin af okkar hálfu og hafi verið í einhvern tíma. Við munum setja hana fram þegar við metum að það sé réttur tími til þess,“ segir Lárus. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í fréttum RÚV í gær að hann vonist til þess að sala ríkisins á Íslandsbanka geti hafist á næstu vikum. Það velti meðal annars á því hvenær tillaga Bankasýslunnar berist.

Lárus segir að heppilega tímasetningu miðast við að tillögurnar fái eðlilega meðhöndlun og afgreiðslu þegar þær verði kynntar, til dæmis fyrir Alþingi. Það sé meðal annars ástæðan fyrir því að ákveðið hafi verið að bíða með að leggja tillögurnar fram fyrr en eftir að þing kæmi saman.

Íslenska ríkið á Íslandsbanka að öllu leyti og rúmlega 98 prósenta hlut í Landsbankanum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin vilji leita leiða til að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

Markaður Fréttablaðsins greindi frá því fyrr í mánuðinum að í tillögu Bankasýslunnar sé lagt til að fjórðungshlutur í Íslandsbanka verði seldur í útboði eða allt að hundrað prósenta hlutur með uppboðsleið