Að mati fjármálaráðuneytisins hafa tillögur Hafró ekki mikil efnahagslegáhrif á árinu 2004 en þó má gera ráð fyrir að útflutningsframleiðsla sjávarafurða dragist saman um ¼% frá því sem reiknað var með í síðustu þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem birtist í apríl sl. Áhrifin eru meiri árið 2005. Þannig var í spánni gert ráð fyrir að útflutningur sjávarafurða ykist um 3% að magni milli áranna 2004 og 2005. Ef tillögur Hafró ganga eftir yrði aukningin minni eða sem nemur 2% að raungildi.

Hafrannsóknastofnunin birti sem kunnugt er tillögur sínar um hámarksafla á næsta fiskveiðiári í byrjun vikunnar. Í skýrslunni kemur fram að áhrif einkenna hlýsjávarskeiðs séu farin að hafa merkjanleg áhrif á fiskistofna og eru þau bæði jákvæð og neikvæð. Stofnstærð loðnu hefur minnkað sem hefur sennilega þau áhrif að þorskstofninn vex hægar en gert var ráð fyrir í skýrslu síðasta árs. Aftur á móti hefur hlýrri sjór þau áhrif að mun meira mælist af ýsu og ufsa.

Það er hins vegar mat fjármálaráðuneytisins að það þurfi að hafa þann fyrirvara á að í þessum útreikningum er miðað við sama loðnu- og karfaafla og í fyrri áætlun þar sem ekki er búið að veita ráðgjöf varðandi allar karfategundir og enn er eftir að gera mælingar á loðnu. Í þessum áætlunum er gengið út frá nýrri upplýsingum um aflaverðmæti en
síðustu þorskígildisstuðlar byggja á. Þetta gefur betri mynd af áhrifum
tillagnanna þar sem verðbreytingar milli tegunda hafa verið töluverðar.