Ástandið á fasteignamarkaði er orðið svo slæmt að um 20-25 löggiltir fasteignasalar geta ekki einu sinni borgað lögboðið eftirlitsgjald upp á 100 þúsund krónur, að sögn Grétars Jónassonar, framkvæmdastjóra Félags fasteignasala.

Hann segir gjaldtökuna mörgum þungbær.

„Þó að það sé okkur þvert um geð kann að vera að við neyðumst til að óska eftir gjaldþrotaskiptum hjá þó nokkrum fasteignasölum vegna vangoldinna gjalda. Menn sjá það í hendi sér að staðan er víða bágborin í greininni ef ekki eru tök á að greiða upphæð af þessari stærðargráðu," segir Grétar.

Of hátt hlutfall almennra starfsmanna

Alls eru tæplega 120 fasteignasölur starfandi hérlendis og í greininni starfa um 800-900 manns, þar af um 250 löggiltir fasteignasalar.

Grétar kveðst þeirrar skoðunar að löggiltir fasteignasalir séu ekki of margir, en hins vegar séu of margir almennir starfsmenn í greininni, eða tæp 30% löggiltra á móti rúmum 70% almennra starfsmanna.

„Okkur finnst þetta hlutfall óeðlilegt og viljum hafa það þveröfugt," segir hann.