Stjórnvöld í Norður-Kóreu framkvæmdu sjöttu og öflugustu tilraun sína með vetnissprengju á tilraunarsvæði Norður-kóreska hersins í nótt. Tilraunin snerist um þróun stjórnvalda á vetnissprengju til þess að skjóta af stað langdrægum eldflaugum til óvina sinna. Í yfirlýsingu frá stjórnvöldum kom fram að tilraunin hafi „heppnast fullkomlega“. Um málið er meðal annars fjallað á Reuters-fréttaveitunni .

Jörðin virðist hafa skolfið allsvakalega vegna sprengingarinna. Alþjóðlegar jarðskjálftamælingstöðvar merktu talsverðan skjálfta vegna tilraunarinnar – en samkvæmt japönskum og Suður-kóreskum stjórnvöldum var skjálftinn vegna sprengingarinnar 10 sinnum kraftmeiri en í síðustu tilraun Norður-Kóreumanna – sem var gerð fyrir ári síðan.

Trump skýtur á Kína

Alþjóðasamfélagið hefur margoft fordæmt tilraunir Norður-Kóreumanna með kjarnorkuvopn og nú var ekki breyting þar á. Suður-Kórea, Japan og Frakkar hafa gagnrýnt Norður-Kóreu, og meira að segja Kínverjar, helstu samstarfsaðilar Norður-Kóreu, gagnrýnt stjórnvöld í Pyongyang og sagt þeim að hætta þessum „röngu“ gjörðum.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sendi frá sér skýr skilaboð á Twitter þar sem hann gagnrýndi Norður-Kóreu harðlega. Forsetinn beindi orðum sínum einnig að Kína vegna atviksins: „Norður-Kórea hefur framkvæmt meiriháttar kjarnorkutilraun. Orð þeirra og gjörðir eru gífurlega fjandsamleg og hættuleg Bandaríkjamönnum. Norður Kórea er skúrkur meðal þjóða og skapar mikla hættu og skömm fyrir Kína, sem hefur reynt að hjálpa til, án árangurs,“ tísti forseti Bandaríkjanna.