Tilraunir hjá Símanum með nýtt langdrægt farsímakerfi hafa gengið vel. Starfsmenn Símans og Ericsson hafa síðustu daga verið með ítarlegar prófanir á nýjum langdrægum 3G farsímasendum við strendur Suðurlands. Niðurstaðan hefur leitt í ljós að talsamband ásamt gagnasendingum um kerfið virkar fullkomlega yfir 100 kílómetra fjarlægð frá næsta farsímasendi.

Í tilkynningu vegna prófanna segir Þór Þórisson, framkvæmdastjóri Tæknisviðs hjá Símanum að prófanir lofi góðu fyrir 3G þjónustuuppbyggingu Símans á landsbyggðinni. " Stöðugleiki kerfisins ásamt langdrægni mun auðvelda alla dekkun yfir stór og dreifð byggðasvæði. Við prófuðum kerfið við ýmsar aðstæður og náðum til dæmis að hringja myndsímtal ofan af fjalli þar sem 123 kílómetrar voru í næsta sendi".

Þór segir að ef það verði raunin að Síminn sæki um og fái leyfi frá Póst og Fjarskiptastofnun til að reka þetta nýja 3G kerfi á sömu tíðni og venjulegt GSM kerfi notar þá muni það verða til þess að þétta dekkun farsímanetsins enn frekar á landsbyggðinni og inn á svæði sem skammdrægari GSM sendar ná ekki til.  Það eina sem viðskiptavinir þurfa að hugsa fyrir sé að vera með farsíma og símakort sem styðji 3G staðalinn en slík kort fá viðskiptavinir þeim að kostnaðarlausu hjá Símanum.