Tim Ward, lögmaður Íslands í Icesave-málinu, er lögmaður á bresku lögmannsstofunni Monckton Chamber. Hann hóf lögmannsstörf árið 1994 og varð það sem kallað er í Bretlandi Queen's Councel árið 2011, en í einföldu máli má líkja þeirri stöðu við stöðu Hæstaréttarlögmanna á Íslandi. Á heimasíðu Monckton er honum lýst sem fyrsta flokks lögmanni og hefur samkeppnislagadómstóllinn í Bretlandi lýst honum sem afbragðs samkeppnisréttarlögmanni.

Tim Ward.
Tim Ward.

Hann var tilnefndur sem lögmaður ársins árið 2008 og þykir sérstaklega hæfur lögmaður á sínum sérsviðum. Þau eru einkum viðskipta- og stjórnsýsluréttur, mannréttindalögfræði og Evrópu- og samkeppnisréttur. Hann hefur flutt um fimmtíu mál fyrir Evrópudómstólnum.

Meðal þeirra mála sem hann hefur komið að nýlega, fyrir utan náttúrlega Icesave-málið, eru meint brot breskra banka í því hvernig LIBOR vextir voru reiknaðir út, en enn sér ekki fyrir endann á því máli.