Það er sívinsælt á meðalgöngugarpa að ganga á Hvannadalshnúk á vorin og sumrin. Göngugarpar fara þá jafnan í skipulagðar ferðir á vegum félaga eins og Íslenskra fjallaleiðsögumanna, Arctic Adventures, Ferðafélags Íslands og Local Guide.

Hjá þessum félögum starfa þaulvanir leiðsögumenn sem leiðbeina göngumönnum rétta vegu. Bríet Rún Ágústsdóttir, starfsmaður í dagsferðardeild Íslenskra fjallaleiðsögumanna, segir að fjöldi Íslendinga sem fer í slíkar ferðir hafi verið nokkuð jafn undanfarin ár. „Þetta er ekkert að aukast þannig, en það er þá frekar að útlendingar séu að sækjast meira í þetta,“ segir hún í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við erum með þrjár ferðir á viku. Þetta eru allt frá því að vera tveir og upp í tólf manna hópar í þessum ferðum. En við erum líka að taka sérhópa af Íslendingum sem eru oft í kringum 30 manns eða fleiri,“ segir Bríet Rún. Hún segir að það séu sex manns í línu sem hafi þá einn leiðsögumann með sér. Skipulagðar ferðir eru á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum.

Bríet Rún segir að vinsælast sé að fara í maí og þá séu aðstæður bestar. „Við byrjuðum 1. apríl og þetta er svona út miðjan ágúst. En þegar það er komið fram í ágúst fara aðstæður að verða svolítið erfiðar og það verður alltaf erfiðara að ná toppnum,“ bætir hún við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .