Títan fjárfestingafélag ásamt núverandi hluthöfum og lykilstarfsmönnum hafa fjárfest í Thor Data Center fyrir um 400 milljónir. Títan fjárfestingarfélag mun eignast ríflega 33% hlut í Thor eftir hlutafjáraukninguna. Thor hóf nýlega gagnavörslu fyrir norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software í gagnaveri sínu í Hafnarfirði.

Thor gagnaverið er í dag það gagnaver í heiminum sem veldur minnstri röskun á umhverfinu. Bæði er það vegna nýrrar gámatækni sem gagnaverið notar, en ekki síst vegna þess að það nýtir einungis endurnýjanlega orku frá íslenskum gufuaflsvirkjunum.

Skúli Mogensen eigandi og stjórnarformaður Títans og Baldur Baldursson, framkvæmdastjóri félagsins munu taka sæti í stjórn Thor.

„Hjá Thor Data Center er frábært starfsfólk sem byggt hefur upp mikla þekkingu á gagnaflutningum og stendur að okkar mati mjög framarlega á sínu sviði. Það verður mjög spennandi að taka þátt í uppbyggingu félagsins á næstu árum,“ segir Skúli.

Títan fjárfestingafélag er í eigu Skúla Mogensen og hefur þegar fjárfest fyrir rúma 1,2 milljarða í íslenskum fyrirtækjum á síðastliðnum níu mánuðum. Helstu fjárfestingar eru Carbon Recycling International, Securitas, CAOZ, Tindar Verðbréf, Datamarket og nú Thor Data Center. Markmið Títans er að vera leiðandi og virkur fjárfestir í félögum með mikla vaxtamöguleika bæði innanlands og utan.