Skilanefndir Glitnis og Kaupþings hafa þegar sett á stað vinnu við að greina hver áhrifin yrðu af því ef dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Stapa Lífeyrissjóðs gegn ALMC hf., sem áður hét Straumur-Burðarás fjárfestingabanki, verður staðfestur í Hæstarétti.

Í versta falli getur sú niðurstaða tafið vinnu við nauðasamningsferli. „Þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða vel og meta hver áhrifin verða ef niðurstaðan verður staðfest í Hæstarétti. Þetta getur leitt til þess að nauðasamningar, ef til þeirra kemur, verða flóknari og jafnvel tímafrekari. Það er að mörgu að hyggja í þessum málum,“ sagði Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis.

Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, hefur greint frá því að stefnt sé að því að koma búi Kaupþings í gegnum nauðasamning, þ.e. ef vilji kröfuhafa stendur til þess.

Samkvæmt fyrrnefndum dómi héraðsdóms ber ALMC að greiða Stapa 5,2 milljarða króna enda þótt Stapi hafi ekki lýst kröfu í búið innan tilsettra tímamarka.Lögmannsstofa sem vann fyrir sjóðinn sá um málið fyrir hönd Stapa og lýsti kröfu sinni í búið of seint.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.