Tælensk yfirvöld hafa lokað fyrir aðgengi að 2.300 heimasíðum. Þá eru 400 aðrar heimasíður taldar varasamar fyrir netverja að skoða í tölvunum sínum að því er fram kemur á vefsíðu danska ríkisútvarpsins DR.

Forsjárhyggja tælenskra yfirvalda lýtur einkum að því að almenningur sé ekki að álpast inn á heimasíður sem á einhvern hátt geta talist meiðandi fyrir konunginn Bhumibol Adulyadej, Sirikit drottningu og fjölskyldu þeirra.

Ef menn hyggjast opna slíkar heimasíður þá kemur einfaldlega upp gluggi sem segir lokað eða “lap” eins og það heitir víst á tælensku. Það er nýútnefndur upplýsinga- og tæknimálaráðherra Tælands sem ákveðið hefur með þessum hætti að hafa vit fyrir samlöndum sínum.

Athyglisvert er að skoða þessa frétt DR í samhengi við hvað tælenskum yfirvöldum þykir þóknanlegt að almenningur sé að glugga í á netinu. Þannig var náðarsamlegast opnað fyrir aðgengi almennings að 60.000 síðum á netinu sem lýstu 61 árs stjórnartíð konungsins á afmælisdegi hans 5. desember 2007. Vonandi hafa þær síður þó allar verið vandlega yfirfarnar af embættismönnum konungs.