TM Software hefur keypt hollenska hugbúnaðarfyrirtækið Falcon Automatisering BV, sem sérhæfir sig í framleiðslu og sölu hugbúnaðarlausna fyrir heilbrigðisgeirann. Kaupin eru liður í stefnu TM Software að styrkja stöðu sína í Evrópu með áherslu á Benelúxlöndin.

Að sögn Axels Ómarssonar, framkvæmdastjóra TM Software í Evrópu, munu kaupin styrkja stöðu fyrirtækisins, sem hefur markaðssett hugbúnaðarlausnir fyrir heilbrigðisstofnanir undir vörumerkinu Theriak á Evrópumarkaði frá því árið 2001. ?Falcon er vel þekkt fyrirtæki á sínu sviði í Hollandi með góðan rekstur,? segir Axel, ?og vöruframboð þess fellur vel að okkar lausnum.? Hann segir að samlegðaráhrif með Falcon séu umtalsverð, ekki einungis í Hollandi heldur í öllum þeim löndum sem TM Software selji hugbúnaðarlausnir sínar.

Viðskiptavinir Falcon Automatisering eru um 64 talsins og kerfi þess í notkun hjá um 50% hollenskra sjúkrahúsa. Fyrirtækið, sem var stofnað árið 1988, býður upp á hugbúnaðarlausnir fyrir heilbrigðisstofnanir, einkum sjúkrahús og hjúkrunarheimili. Markmið þess er að þróa hagkvæmar lausnir á sviði lyfjameðhöndlunar og fjármála- og skipulagskerfi fyrir heilbrigðiskerfið.
Cor van der Wurff, forstjóri Falcon Automatisering, segir kaupin hafa verið rökrétt skref fyrir fyrirtækið. ?Hugbúnaðarfyrirtæki með lausnir fyrir heilbrigðisstofnanir verða að vera öflug og með fjölbreytt úrval,? segir hann. TM Software uppfylli þessi skilyrði og bjóði nú upp á enn fjölbreyttara úrval eftir kaupin.