Dagar reykinga eru liðnir og tóbaksfyrirtæki munu leita leiða til að þróa reyklausar vörur sem þó innihalda nikótín, telur Amanda Sandford, sérfræðingur hjá breska tóbaksvarnargóðgerðarfélaginu Ash. Breska þingið samþykkti nýverið að banna reykingar á opinberum stöðum á Englandi á næsta ári, svo sem krám og veitingastöðum.

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra, hefur lagt fram stjórnarfrumvarp þess efnis að reykingar verði bannaðar á veitinga- og skemmtistöðum á Íslandi næsta sumar. Ef frumvarpið verður að lögum fylgja Íslendingar í fótspor Skota, Norður-Íra, Íra, Norðmanna, Möltubúa og Svía, sem nú þegar hafa samþykkt að draga úr reykingum á opinberum stöðum. Einnig eru reykingar bannaður víðsvegar í Bandaríkjunum.

"Meginmarkmið frumvarpsins er vinnuvernd starfsmanna á veitinga- og gistihúsum og vernd almennings með vísan til hratt vaxandi vísindalegra sannana fyrir því að óbeinar reykingar valdi heilsutjóni og dauðsföllum," sagði heilbrigðisráðherra til stuðnings frumvarpinu á Alþingi.

Sandford segir alþjóðleg tóbaksfyrirtæki gera sér grein fyrir því að framtíðin sé reyklaus og að þau vinni nú að því að finna reyklausar vörur sem munu taka við af sígarettum. British American Tobacco (BAT), eitt af stærstu tóbaksfyrirtækjum heims, hefur sagt að félagið hafi áhuga á að selja munntóbak, eða snus, innan Evrópusambandsins. Sala snus er aðeins leyfð í Svíþjóð innan sambandsins.

Snus-sala í Svíþjóð er mun meiri en sala á sígarettum og telja margir að það sé helsta ástæðan fyrir lágri tíðni lungnakrabbameins í landinu. Um 16% karlmanna í Svíþjóð nota munntóbak en 14% reykja sígarettur.

BAT hefur þegar hafið sölu á munntóbaki í Suður-Afríku undir merkjum Lucky Strike og annað tóbaksfyrirtæki, Gallaher, hefur lýst yfir áhuga á að kaupa sænskan snus-framleiðanda.

"Við munum fagna viðræðum við yfirvöld um að markaðssetja snus-munntóbak í Evrópu," sagði talsmaður BAT í samtali við breska sunnudagsblaðið The Observer.

Á áttunda áratugnum reyndi bandaríska fyrirtækið Skoal að selja munntóbak í Evrópu, en síðar var bannað að selja slíkt tóbak í kjölfar mikilla mótmæla almennings og heilsustofnana. Talsmaður BAT bendir á skýrslu frá Ash, þar sem góðgerðarfélagið segir það óeðlilegt að banna sölu munntóbaks en að leyfa sölu á sígarettum, sem félagið telur mun skaðlegra heilsu manna en munntóbak.

"Við erum ekki að segja að neysla munntóbaks hafi ekki slæm áhrif á heilsuna," segir Sandford og leggur áherslu á að líkur séu á því að krabbamein í munni megi rekja til munntóbaksneyslu. "En það eru dæmi um það að með því að nota munntóbak hafi reykingamönnum tekist að hætta að reykja," segir hún.

Bresku læknasamtökin The Royal Collage of Physicisans halda því fram að snus-notkun sé þúsund sinnum skaðlausari heilsu manna en reykingar. Heilsuyfirvöld Evrópusambandsins hafa farið fram á endurskoðun á því hversu skaðleg snus-notkun er og hvort að snus geti verið notað til að hætta að reykja.