*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 17. júní 2021 15:03

Tokyo Sushi vex fiskur um hrygg

Velta Tokyo Sushi jókst um 100 milljónir króna í faraldrinum og hagnaður nam um 56 milljónum miðað við átta milljónir árið 2019.

Snær Snæbjörnsson
Andrey Rudkov, framkvæmdastjóri og eigandi Tokyo Sushi.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Tokyo veitinga ehf., sem að rekur Tokyo Sushi, nam tæpum 56 milljónum króna á síðasta ári borið saman við rúmlega átta milljónir árið á undan. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2020.

 Velta félagsins á síðasta ári nam um 1,21 milljarði króna á síðasta ári en árið á undan var veltan um 1,12 milljarðar. Þá nam rekstrarhagnaður félagsins um 74 milljónum króna á árinu. Handbært fé í lok árs nam um 48 milljónum króna í lok árs samanborið við 14 milljónir árið 2019.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 279 milljónir króna í lok árs sem er tæplega 20% aukning frá árinu áður. Þá nam eigið fé félagsins 152 milljónum króna sem er hækkun um 57% á milli ára. Eiginfjárhlutfall félagsins var um 54% í lok árs sem er 13% hækkun frá árinu áður.  

Laun- og starfsmannagjöld félagsins á árinu námu um 561 milljón króna á árinu sem er 17 milljóna króna lækkun á milli ára. Þá fækkaði starfsfólki um átta á liðnu ári og voru um 85 manns í starfi hjá félaginu í lok árs.

Veltan óx í faraldrinum

Í ársreikningum er sagt að áhrif heimsfaraldursins hafi haft óveruleg áhrif á efnahag, afkomu og sjóðstreymi félagsins. Í upphafi faraldurs hafi félagið fundið fyrir veltusamdrætti og þurft að nýta sér greiðslufrestunarheimildir stjórnvalda.

Síðar hafi félagið hins vegar gripið til aðgerða til að auka veltu með aukinni þjónustu til viðskiptavina. Fór svo að velta ársins var hærri á liðnu ári en árið á undan og hefur haldið áfram að vaxa það sem af er þessu ári. Þá er félagið jafnframt búið að gera upp öll opinber gjöld við stjórnvöld.

Framkvæmdastjóri Tokyo veitinga er Andrey Rudkov en hann á jafnframt 90% hlut í félaginu. Ari Alexander Guðjónsson á 10% hlut.

Stikkorð: Tokyo Sushi