Viðskiptaráð Íslands fagnar því að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, boði heildarendurskoðun á tollakerfinu hér á landi. Þetta kemur fram á vefsíðu Viðskiptaráðs .

Þar segir að einföldun á tollakerfinu væri til hagræðis fyrir innflytjendur og hagsbóta fyrir neytendur.

„Tollar hér á landi eru tæplega þrefalt hærri en í nágrannalöndum Íslands og neyslustýringaráhrif þeirra, þ.e. hversu misjafnlega tollarnir leggjast á ólíkar vörutegundir, eru tvöföld,“ segir í umfjöllun Viðskiptaráðs.

Þá er einnig á það bent að skilvirkni í framkvæmd kerfisins sé minni hér á landi en í nágrannalöndunum. Hérlendis séu tollar lagðir á samkvæmt tollskrá sem innihaldi yfir 12 þúsund tollnúmer, sem sé umtalsvert yfir alþjóðlegu meðaltali.

„Á sama tíma námu tekjur ríkissjóðs af tollum einungis 0,9% af heildartekjum ríkissjóðs árið 2013 eða 7 ma. kr. Þrátt fyrir að þessar litlu skatttekjur hafa tollar hér á landi mikil áhrif á hegðun fólks. Þannig draga tollar úr vöruviðskiptum, flytja verslun úr landi og skekkja samkeppni á innlendum mörkuðum án þess að vega þungt í tekjuöflun hins opinbera.“