Norræna vísitalan OMXN40 lækkaði um 1,7% í dag, sem er í samræmi við þróunina á hlutabréfamörkuðum í Evrópu almennt. Í Kaupmannahöfn nam lækkun úrvalsvísitölunnar tæpum 2%, 1,2% í Helsinki, 0,9% í Ósló og 1,3% í Stokkhólmi. Í London nam lækkunin 1,6%, í París 1,8% og í Frankfurt 1,9%. Íslenski markaðurinn skar sig úr í dag með 1,3% hækkun.

Lánshæfismatsfyrirtækið S&P lækkaði í dag lánshæfi franska bankans Societe Generale vegna slakrar áhættustýringar, að sögn Bloomberg. Fyrir þremur vikum varð bankinn fyrir gríðarlegu tjóni vegna meintrar sviksamlegrar hegðunar eins miðlara bankans.

Í Financial Times Deutschland segir að óvæntar veikar hagtölur í Bandaríkjunum hafi haft neikvæð áhrif í Evrópu í vikulok. Ennfremur hafi ótti við frekari niðurfærslur í bankakerfinu dregið niður stemninguna.