Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um 0,8% og stendur nú í 1.864,3 stigum eftir 1,8 milljarðs viðskipti dagsins. Alls hækkuðu þrjú félög í dag, gengi þriggja stóð í stað á meðan fjórtán lækkuðu í verði.

Mest lækkun var á bréfum fasteignafélaganna en bréf Eikar lækkuðu um 4,3%, bréf Reita um 4,2% og bréf Regins um 2%. Þá lækkuðu bréf Haga um 2,9% en um tvöleytið í dag var greint frá því að bæði Finnur Árnason forstjóri og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, myndi láta af störfum hjá félaginu þar sem þeir hafa báðir starfað í yfir tvo áratugi.

Mest hækkun var á bréfum Kviku banka eða 2,5% í 390 milljóna viðskiptum og þá hækkuðu bréf Brims um 0,7% í 133 milljóna viðskiptum.

Mest velta var í viðskiptum með bréf Marel sem lækkuðu um 0,16% í 482 milljóna viðskiptum.