Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir að helsta ógnin sem steðji að almenningi séu tölvuglæpir. Þetta kom fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun.

Boðað var til fundarins eftir að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, óskaði eftir upplýsingum um Vodafone-lekann sem varð um síðustu helgi. Katrín segir að þessi ummæli Jóns Bjartmarz hafi ekki komið á óvart

„Það var búið að ræða þessi mál í nefndinni sem starfaði um mótun þjóðaröryggisstefnu, að það væru annarsskonar ógnir en hinar hefðbundu sem steðjuðu að,“ segir Katrín í samtali við VB.is

„Þetta atvik var svona ákveðin uppvakning. Þó að við vitum af þessari hættu þá held ég að fólk sé ekki nægilega meðvitað um það hve raunveruleg hún er,“ segir Katrín.

Katrín segir að það hafi komið mjög á óvart á fundinum að það er uppi ágreiningur um túlkun á lögum um gagnageymd. „Þetta eru skilaboð sem voru send í gegnum heimasíðu og þá var búið að velja þann möguleika fyrir fólk að gögnin yrðu vistuð. Það þurfti að velja sig frá því,“ segir Katrín. Það virðist vera ágreiningur um að ákvæði í lögum um hámark sex mánaða geymslu gagna eigi við í þessu tilfelli. „Ef það er ágreiningur um það þá þarf að skoða lögin um þetta,“ segir Katrín.

Katrín segir að fyrst þegar farið var að móta netöryggisstefnu og unnið að henni hafi mátt greina það á máli fyrirtækjanna að þau væru á móti henni. „Umsagnir voru ekki mjög jákvæðar, en viðhorfin eru breytt. Fólk er reiðubúðið til að taka höndum saman til að vinna að þessum málum,“ segir Katrín.

Katrín segir að mörgum spurningum sé ósvarað. Nú sé horft fram á niðurskurðarfjárlög. Póst- og fjarskiptstofnun og fjarskiptanefnd telji sig ekki hafa fjármuni til að sinna starfsemi sinni að fullu. Þetta þurfi að skoða þegar verið sé að gera kröfur til þeirra.