Matsfyrirtækið Moody’s gaf flóknum fjármálagjörningum, sem voru margir milljarðar Bandaríkjadala að verðmæti, hæstu lánshæfiseinkunn vegna reiknivillu í tölvulíkönum. Lykilstarfsmenn fyrirtækisins vissu af villunni snemma í fyrra.

Breska blaðið Financial Times hefur undir höndum gögn sem sýna að lykilstarfsmenn matsfyrirtækisins Moody’s hafi uppgötvað reiknivillu í tölvulíkönum fyrirtækisins snemma í fyrra.

Villan gerði það að verkum að fyrirtækið gaf svokölluðum skuldabréfavafningum með föstu hlutfalli (e. constant proportion debt obligation [CPDO]) hæstu lánshæfiseinkunn en slíkir fjármálagjörningar snúast um gírugar stöðutökur í afleiðum tengdum vísitöluþróun á markaðnum með skuldatryggingaálag.

Samkvæmt gögnum Financial Times er um að ræða innsláttarvillu í tölvukóða og þegar hún var leiðrétt kom í ljós að fyrstu CPDO-gjörningarnir sem höfðu verið metnir ættu í raun að vera með lánshæfiseinkunn sem er fjórum þrepum lægri en hæsta einkunn.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .