Enginn blaða- eða fréttamaður mætti á kynningarfund Seðlabanka Íslands þar sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri kynntu ákvörðun peningastefnunefndar um óbreytta stýrivexti, sem gerð var opinber í morgun. Reyndar voru tveir aðkomumenn í salnum, en það var sjónvarpstökumaður og ljósmyndari.

Fundurinn stóð því stutt eða í um sex mínútur. Már fór yfir yfirlýsingu peningastefnunefndar, sem send var fjölmiðlum og spurði svo hvort það væri nokkuð tilefni til að hafa fundinn lengri. Ekkert svar barst, enda sætin á móti tóm, og sleit þá seðlabankastjóri fundi.

Fylgjast með vefútsendingu

Ákvörðun peningastefnunefndar hafði engin teljandi áhrif á markaðinn í morgun. Oft hefur verið mikill titringur í kringum stýrivaxtaákvörðun en nú virtist spennan vera minni sem útskýrir að einhverju leyti fundarsóknina. Önnur skýring kann að vera sú að fundirnir voru færðir til klukkan 10.30 en hafa lengi verið klukkan 11. Þá fylgjast margir með vefútsendingu en mæti enginn verður fátt um spurningar og nánari útskýringar fulltrúa í peningastefnunefnd.

Blaðamönnum Viðskiptablaðsins, sem fylgdust með vefútsendingu Seðlabankans, rekur ekki minni til að enginn frétta- eða blaðamaður hafi mætt á þessa kynningarfundi síðastliðin tíu ár.