Tony Blair hefur tekið við hlutastarfi hjá JPMorgan, einum þekktasta fjárfestingarbanka á Wall Street, að sögn Financial Times. Haft er eftir Blair að þetta verði sú fyrsta af nokkrum stöðum sem hann geri ráð fyrir að taka að sér í einkageiranum.

Blair, sem hætti sem forsætisráðherra Bretlands í fyrra, mun nýta sér reynslu sína og tengsl til að veita bankanum pólitíska og strategíska ráðgjöf, auk þess að koma fram á atburðum á vegum bankans. Ekki hefur verið gefið upp hver laun Blair verða, en FT hefur eftir atvinnumiðlara á Wall Street að líklegt sé að þau verði yfir einni milljón Bandaríkjadala.