Bandaríska pizzakeðjan Upper Crust hefur sagt upp 140 starfsmönnum og stendur frammi fyrir gjaldþroti ef ekki er hægt að finna nýtt fé til að setja í reksturinn.

Í fyrirtöku hjá gjaldþrotadómara í Boston í gær kom fram hjá skiptastjóranum að aðeins eru eftir um 14.000 dalir í hirslum fyrirtækisins eftir að framkvæmdastjórarnir ákváðu að greiða sér eins mánaðar laun fyrirfram. Þeir hafa talið það heppilegri notkun á fé fyrirtækisins en að greiða hluta þeirra 850.000 dala sem fyrirtækið skuldar núverandi og fyrrverandi starfsmönnum í laun.

Fyrirtækið þarf um 120.000 dali til að geta haldið áfram rekstri, en þegar hafa 10 af 16 Upper Crust stöðum lokað. Í síðasta mánuði fór fyrirtækið í greiðslustöðvun.