*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Fólk 4. júlí 2021 18:02

Toppneytandi og töl­fræði­nörd

Sig­rún Ösp Sigur­jóns­dóttir er ný­ráðinn for­stöðu­maður Rann­sókna­seturs verslunarinnar.

Andrea Sigurðardóttir
Sigrún Ösp er mikill áhugamaður um verslun, gagnagreiningu og tölfræði og er því hæstánægð með nýja starfið.
Aðsend mynd

Ég vann á Hag­stofu Ís­lands við gagna­öflun með há­skóla­námi og var síðan ráðin sér­fræðingur á efna­hags­sviði Hag­stofunnar að loknu námi. Þaðan var ég svo plötuð út í verka­lýðs­bar­áttuna," segir Sig­rún Ösp Sigur­jóns­dóttir, ný­ráðinn for­stöðu­maður Rann­sókna­seturs verslunarinnar (RSV).

Hún starfaði sem verk­efna­stjóri og hag­fræðingur fyrir fimm fé­lög innan Banda­lags há­skóla­manna og var síðar ráðin fram­kvæmda­stjóri Fé­lags ís­lenskra náttúru­fræðinga. „Það má því segja að ég sé komin hinum megin við borðið, í Hús at­vinnu­lífsins úr hinum enda Borgar­túnsins þar sem verka­lýðs­hreyfingin er til húsa," segir Sig­rún og bætir við að henni hafi þótt fróð­legt að upp­lifa menningar­muninn þarna á milli. „Það er tölu­verð breyting að koma hingað yfir, þar sem skil­virknin er ó­trú­lega mikil," segir hún.

Sig­rún virðist hafa lent á réttri hillu hjá RSV, en hún er mikill á­huga­maður um verslun, gagna­greiningu og töl­fræði. „Mér finnst ég alveg of­boðs­lega heppin að hafa dottið niður á þetta starf. Ég er mikið R nörd. Það er kannski skrítið að kalla R á­huga­málið sitt, en þannig er það orðið," segir hún hlæjandi og bætir við:

„Ég er líka al­gjör toppneytandi, ég versla ó­trú­lega mikið og hrein­lega elska net­verslun. Það að geta verslað í matinn á netinu og fengið heim­sendingu hefur verið mikil lífs­gæða­aukning fyrir fjöl­skylduna."

Sig­rún býr á Sel­tjarnar­nesi með manninum sínum, Benóný Harðar­syni, og þremur börnum á aldrinum 2 til 17 ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér