*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 10. júní 2019 11:01

Töpuðu 100 milljóna máli

Sparisjóður Höfðahverfinga missti af forkaupsrétti á bréfum í RB, sem hefði hjálpað honum að ná eiginfjárkröfum FME.

Höskuldur Marselíusarson
Sparisjóður Höfðahverfinga var stofnaður árið 1879 og er með höfuðstöðvar á Grenivík, en einnig hefur hann starfrækt útibú á Akureyri frá árinu 2012.
Haraldur Guðjónsson

Jón Ingvi Árnason sparisjóðsstjóri í Sparisjóði Höfðahverfinga staðfestir að sjóðurinn hafi náð að uppfylla eiginfjárkröfurnar sem hækkuðu á sjóðinn þann 15. maí síðastliðinn, og segir hann að stefnt sé að stofnfjáraukningu til að ná hækkun kröfunnar sem verður í upphafi næsta árs.

Þar með munu þeir tveir af fjórum sparisjóðum í landinu, sem enn eru undir endanlegu eiginfjárkröfunni og fer stighækkandi á þá fram til 1. febrúar næstkomandi, þurfa að fara í stofnfjáraukningu til að ná hækkuninni, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um stendur söfnun stöfnfjárs nú yfir hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga. Til viðbótar við kröfuna þurfa þó sjóðirnir einnig, ólíkt öðrum bönkum, að greiða 5% hagnaðar síns í samfélagsverkefni.

Jón Ingvi segir að það hefði hjálpað sjóðnum töluvert að ná markmiði eiginfjárkröfunnar á næsta ári ef þeir hefðu unnið tvö mál vegna forkaupsréttar á hlutum í Reiknistofu bankanna sem sjóðurinn tapaði fyrir Hæstarétti gegn Mentis í síðustu viku eins og Viðskiptablaðið sagði frá.

Deilt var um hvort sparisjóðurinn hefði tilkynnt með fullnægjandi hætti nýtingu forkaupsréttar síns á tæplega 7% hlut, sem Samband íslenskra sparisjóða og Kvika seldu. Bókfært virði eignarhlutarins í ársreikningi Mentis nemur 103,4 milljónum króna.

Í ársbyrjun síðasta árs jók Sparisjóður Höfðahverfinga stofnfé sitt um 56 milljónir króna, og hækkaði eiginfjárhlutfall hans þar með, reiknað samkvæmt reglum FME, úr 15,8% í 18,25%. Eigið fé sjóðsins jókst jafnframt á árinu um 35,2%, úr 333,9 milljónum í 451,6 milljónir króna.

Í lok ársins var hlutfallið því komið í 18,78%, sem er yfir 17,75% eiginfjárkröfunni sem gilti frá 15. maí síðastliðnum, og eins og gefur að skilja 17,25% kröfunni frá áramótum. Þann 1. janúar næstkomandi þarf hlutfallið að haldast yfir 18,75% og vera komið í 19,0% frá 1. febrúar sama ár, samkvæmt ársreikningi.

Austfirðingar og Strandamenn í góðum málum

Eiginfjárkrafa Sparisjóðs Austurlands var í lok síðasta árs 19,85%, en miðað við útreikninga FME var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins í lok árs 26,1%, sem var aukning frá 24,9% árið 2017. Eigið fé sparisjóðsins jókst á árinu um 8,8%, úr 796,9 milljónum króna í 866,7 milljónir. Ef miðað er við sömu hálfs prósentustigs hækkun eiginfjárkröfu hjá öllum sjóðunum þann 15. maí síðastliðinn ætti krafan á Sparisjóð Austurlands að vera komin í 20,35% og svo með sömu 1,25 prósentustiga hækkun og hinir sjóðirnir þurfa að uppfylla fyrir 1. febrúar 2020 þarf hlutfallið að vera komið í 21,60%. Hvort tveggja er undir eiginfjárhlutfalli sjóðsins í lok síðasta árs.

Loks má sjá að eiginfjárkrafa FME á hendur Sparisjóði Strandamanna nam 16,9% á síðasta ári, meðan eiginfjárhlutfallið var 25,5%, en árið 2017 var það 27,7% í árslok. Eiginfé sjóðsins jókst á árinu um rúmlega fimmtung, 20,9%, úr 330 milljónum í 399 milljónir króna. Með sömu viðbót og að ofan frá 15. maí hefur krafan á sjóðinn þá væntanlega verið komin í 17,40%, og þar með frá 1. febrúar 2020, verður krafan komin í 18,65%, sem hvort tveggja er vel undir eiginfjárhlutfallinu við síðustu árslok.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.