Vegna góðrar verkefnastöðu á verkstæðum Toyota í Kópavogi hefur verið ákveðið að í febrúar verði starfshlutfall starfsmanna þeirra 100% í stað 90% segir í frétt félagsins. Starfshlutfall allra starfsmanna Toyota í Kópavogi var um áramótin lækkað í 90%,  en vegna meiri umsvifa á verkstæðum en búist var við hefur starfshlutfall þar verið fært til fyrra horfs.

,,Það dró nokkuð úr verkstæðisvinnu í desember eins og yfirleitt gerist í jólamánuðinum, en það sem af er nýju ári hefur eftirspurnin verið töluvert meiri en við gerðum ráð fyrir og það hefur komið okkur skemmtilega á óvart,“ segir Haraldur Þ. Stefánsson, framkvæmdastjóri Toyota í Kópavogi, í tilkynningu.

„Við teljum að mikil eftirspurn eftir þjónustu á verkstæðum skýrist af því að endurnýjun á bílum er hægari nú en á undanförnum misserum, en greinilegt er að bíleigendur vilja koma með bílana í reglubundnar skoðanir og gera strax við það sem bilar til að tryggja sem besta endingu bílanna“ segir Haraldur enn fremur.

170 nýir fólksbílar seldust í janúar og þar af voru  55 eða 32,4% frá Toyota.  Alls seldust 204 fólks- og sendibílar í janúar.  Þar af voru 78 frá Toyota og Lexus eða 38,2%.

Sala á notuðum bílum var nokkuð góð í janúar, og seldust 179 notaðir bílar hjá Toyota í mánuðinum.