Samkvæmt spá Hagstofunnar verða landsmenn orðnir 408.835 árið 2050 en íbúafjöldi var 313.376 við upphaf spátímabils hinn 1. janúar 2008.

Árleg fólksfjölgun verður að meðaltali 0,6% sem er minni fjölgun en var á síðari hluta 20. aldar. Landsmönnum mun þó fyrirsjáanlega fækka fyrstu tvö ár spátímabilsins.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar en út er komin spá um mannfjölda 2008–2050 í ritröð Hagtíðinda undir efnisflokknum Mannfjöldi.

Á vef Hagstofu kemur fram að vegna lengri meðalævi og lækkaðrar fæðingartíðni verða talsverðar breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Þannig mun öldruðum fjölga verulega á spátímabilinu einkum undir lok þess.

Í dag tilheyra elstu þjóðfélagsþegnarnir óvenjufámennum fæðingarárgöngum sem fæddust á kreppuárunum. Eftir 2020 þegar fjölmennir árgangar eftirstríðsáranna komast á eftirlaunaaldur mun hlutfall aldraðra hækka verulega. Árið 2050 verða 8,3% íbúa áttræðir eða eldri samanborið við 3,2% við upphaf spátímabils.

Sjá nánar á vef Hagstofu Íslands.