Rekstrartap Ríkisútvarpsins á síðasta ári varð 49,7 m.kr. samanborið við 313,7 m.kr. tap árið áður. Fjárlög gerðu ráð fyrir 45,0 m.kr. rekstrarhalla. Árið 2004 var sölutap af fasteign á Akureyri 35,9 m.kr. Þetta þýðir að eiginlegur rekstur stofnunarinnar var nánast hallalaus á árinu 2004 sem er mikill viðsnúningur frá fyrri árum.

Í lok ársins var Ríkisútvarpinu gert að taka á sig 22,0 m.kr. vegna uppgjörs uppsafnaðra lífeyrisskuldbindinga Sinfóníuhljómsveitar Íslands og er sú upphæð færð yfir eigið fé í efnahagsreikningi. Eigið fé lækkaði af framangreindum ástæðum úr 82,0 milljónum í upphafi ársins í 10,2 milljónir í lok ársins.

Verulegur bati varð á rekstri Ríkisútvarpsins á árinu 2004. Hagnaður af rekstri fyrir afskriftir (EBITDA) varð 391,0 m.kr. árið 2004 samanborið við 132,6 m.kr. hagnað árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsliði varð 126,3 m.kr. árið 2004 en árið áður var 107,3 m.kr. halli. Batann má rekja til markvissra aðhaldsaðgerða sem leiddu til þess að rekstrargjöld hækkuðu innan við eitt prósent frá árinu á undan. Tekjur af auglýsingum og kostun jukust á árinu sem er góður árangur þegar horft er til stöðugt harðnandi samkeppni. Afnotagjöld hækkuðu um 7% hinn 1. maí.

Á undanförnum árum hefur Ríkisútvarpið tekist á við stöðugan rekstrarvanda sem má rekja til minnkandi rauntekna og aukinna skuldbindinga vegna greiðslna af lífeyrisláni og framlags til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Til þess að bregðast við þessum vanda hefur ítrekað verið farið ofan í rekstur stofnunarinnar til aðhalds og hagræðingar. Alþingi hefur í reynd viðurkennt þessa erfiðu stöðu með því að heimila Ríkisútvarpinu hallarekstur í fjárlögum.