Athafnamaðurinn og sjónvarpsstjarnan Donald Trump hótar því nú að ekkert verði af fyrirhugaðri hótelbyggingu í Skotlandi ef ekki verður hætt við að reisa í nágrenninu vindmyllur til raforkuframleiðslu.

Trump hefur varið gríðarlegum fjárhæðum í uppbyggingu á hótel- og frístundamiðstöð í nágrenni Aberdeen og er staðurinn með útsýni yfir Norðursjóinn. Í fyrra opnaði Trump glæsilegan golfvöll á staðnum og eins og áður segir er ætlunin að reisa þar lúxushótel fyrir gesti vallarins auk annars golfvallar.

Þau áform skoskra stjórnvalda að setja upp fjölda vindmylla í hafinu andspænis hótelinu hafa aftur á móti farið öfug ofan í Trump. „Vindmyllur eru hræðilegar fyrir umhverfið,“ hefur NPR eftir honum. „Þær drepa fugla, þær eru afar óhagkvæmar og þær eru framleiddar í Kína.“

Hann segist ekki ætla að reisa hótelið ef haldið verður áfram að setja upp myllurnar. „Hver myndi reisa hótel þar sem iðnaðartúrbínur blasa við þegar horft er út um gluggana?“