Donald Trump mælist með 32% fylgi meðal repúblikana í nýrri könnun CNN. Trump hefur bætt við sig átta prósentustigum frá því í ágúst og er fyrsti frambjóðandi repúblikana til að mælast með yfir 30 prósent fylgi meðal líklegra kjósenda í forvalskosningunum um framboð repúblikana til forseta Bandaríkjanna. 51% aðspurðra segja hann vera líklegastan til að sigra fovalskosningarnar.

Taugaskurðlæknirinn Ben Carson er þó hástökkvarinn milli kannana. Hann mælist nú með 19% fylgi, sem er ríflega tvöföldun frá því í síðasta mánuði. Jeb Bush er í þriðja sæti með 9% fylgi, og Ted Cruz mælist með 7% fylgi.

31% karla og 33% kvenna segjast styðja Donald Trump. Viðskiptamógúllinn hefur bætt sérstaklega mikið við fylgi sitt meðal kvenna og háskólamenntaðra undanfarið. Í síðustu könnun sögðust 27% karla styðja hann, en aðeins 20% kvenna.

Trump hefur sérstaklega mikinn stuðning meðal þeirra sem styðja Teboðshreyfinguna svokölluðu. Fjórir af hverjum tíu repúblikönum sem styðja þá hreyfingu segjast jafnframt styðja Trump.

Nánar á vef CNN.