Donald Trump, forsetaefni Repúblíkana, er afar ósáttur við seðlabanka Bandaríkjanna og lágvaxtarstefnu Janet Yellen. Í nýlegu viðtali á sjónvarpsstöðinni CNBC, sagði hann Yellen allt of pólitíska og sakaði hana um að gera allt sem í hennar valdi stendur, til þess að færa næstu niðursveiflu á þann forseta sem taka mun við af Obama.

Hann telur að lágvaxtastefna hennar, sé hönnuð til þess að halda goðsögn Obama á líf, á meðan hann gegnir enþá embættinu. Lágvaxtastefna hennar hefur að hans mati einungis búið til nýja bólu á fjármálamörkuðum. Í viðtalinu bætti hann einnig við að Yellen ætti að skammast sín fyrir störfin.

Ummæli Trump runnu ekki vel í alla. Seðlabankastjórinn í Minneapolis sagði ummælin að öllu leyti röng. Stjórnarformaður Ariel Investments, tjáði sig líka um málið. Hann telur það mikilvægt að gagnrýna störf bankans, en þó sé það hættulegt og ósanngjarnt að saka Yellen um pólitíska hlutdrægni sem þessa.