„Það er mikilvægt að trúverðugleiki peningamálastefnunnar bíði ekki hnekki af mögulegum breytingum á lögum um Seðlabankann,“ segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, í viðtali við áströlsku fréttaveituna MNI. Már var nýverið staddur á alþjóðlegri ráðstefnu seðlabankastjóra í Ástralíu.

Í viðtalinu bendir Már á að þótt Fjármálaráðherra hafi ákveðið að auglýsa stöðu seðlabankastjóra eftir að ráðningartímabili hans lauk lýsi það ekki yfir vantrausti á hann. Það sé frekar liður í mögulegu breytingarferli á lögum um Seðlabankann að sögn Más.

Spurður að því hvort hann vilji sækja aftur um stöðu seðlabankastjóra ef breytingar verði á lögunum segist Már vera óviss. „Spurningin fyrir mig er ekki hvort ég vilji vera áfram seðlabankastjóri heldur hvort ég vilji sækja um sem seðlabankastjóri eða hugsanlega formaður stjórnar Seðlabankans ef breytingar verða á lögunum. Það er eitthvað sem er ómögulegt fyrir mig að segja til um að svo stöddu og mun velta á trúverðugleika ferlisins og mögulegum kerfisbreytingum. En ef ferlið er trúverðugt, þá er ég tilbúinn að skoða það.“