Álag á skuldatryggingar íslensku viðskiptabankanna hefur hríðfallið eftir að ljóst var að Kaupþing hefur lokið við fjármögnun yfirtöku á hollenska bankanum NIBC. Tryggingaálag Kaupþings er nú komið niður í 290 pkt. en stóð í 370 punktum fyrir helgi. Álag Landsbankans er í 175 punkta en var komið upp í 215 punkta síðastliðinn föstudag. Álag Glitnis er nú komið niður í  200 punkta en hæst fór álagið í 270 punkta fyrir helgi. Þetta kom fram í Morgunkorni Glitnis.

Íslensku bankarnir settir undir sama hatt Ljóst er að markaðsaðilar taka þessum tíðindum fagnandi enda binda þau enda á þá óvissu sem hefur ríkt í kringum fjármögnun yfirtöku Kaupþings á NIBC. Þróunin nú bendir einnig til þess að hækkanir undanfarinna vikna á tryggingaálagi allra íslensku bankanna hafi að miklu leyti verið tengdar ofangreindri yfirtöku.

Álag íslensku bankanna hefur frá því í haust farið langt fram úr sambærilegum norrænum og evrópskum fjármálamörkuðum, og virðist markaðurinn gera lítinn greinarmun milli íslensku bankanna þrátt fyrir mismunandi undirliggjandi áhættu. Í þessu samhengi má leiða að því líkur að hækkanir  undanfarinna vikna séu yfirskot og að framundan sé frekari leiðrétting á álagi skuldatrygginga íslensku bankanna. Ómögulegt er þó segja til um hvernig álagið á skuldatryggingar bankanna kemur til með að þróast á næstu vikum enda ríkir enn töluverð óvissa á mörkuðum.

Verðið á skuldatryggingum er að öllu jöfnu notað sem mælikvarði á það traust sem útgefendur skuldabréfa njóta á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði. Því lægra sem álagið er því betra, enda endurspeglar álagið trú fjárfesta á því að viðkomandi skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar. Af því leiðir að fjármögnun reynist ódýrari þegar álagið er lágt. Hafa verður í huga að markaður fyrir skuldatryggingar íslensku bankana er lítill og óskilvirkur, og því nauðsynlegt að taka ofangreindum tölum með talsverðum fyrirvara, segir í Morgunkorni Glitnis.