Samanlagður hagnaður tryggingafélaganna VÍS, Sjóvá og TM á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam 578 milljónum króna en það er 60% minni hagnaður en á sama tíma í fyrra. Heilt yfir litið er ástæðan fyrst og fremst rakin til tveggja þátta: Minnkandi fjárfestingartekna og aukinnar tjónatíðni. Með aukinni óvissu á mörkuðum og aukinni umferð á þessu ári eru horfur ekki góðar fyrir tryggingafélög og líkur eru því á að verð á tryggingum mun hækka þó nokkuð á næstunni.

Samanlagðar fjárfestingartekjur tryggingafélaganna þriggja á fyrsta ársfjórðungi ársins námu 1,5 milljörðum króna en það er helmingi minni afkoma en á sama tíma í fyrra. Á sama tíma hækka samanlögð eigin iðgjöld tryggingafélaganna um átta prósent og eigin tjón um 2%. Tekjur tryggingafélaganna drógust saman um 5% frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Met slegin í umferðarþunga

Til að bæta gráu ofan á svart þá er útlit fyrir að bílaumferð á landinu, bæði á hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu, komi til með að aukast umtalsvert á árinu. Hvert metið hefur verið slegið á fætur öðru þegar kemur að umferð síðustu mánaða samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Vegagerðinni.

Á hringveginum jókst umferðin í apríl um 15% frá sama mánuði í fyrra en það er mesta aukning sem mælst hefur í aprílmánuði og hefur umferðin aldrei verið jafn mikil í þeim mánuði. Það sama á við þegar litið er til fyrstu fjóra mánuði ársins þar sem umferðin hefur aukist um meira en 16%.

Samkvæmt frétt Vegagerðarinnar um málið stefnir nú í að umferðin um hringveginn geti aukist um 8,5% í ár frá fyrra ári. Mikill hagvöxtur, ódýrara eldsneytisverð og mikil aukning ferðamanna skýrir einna helst þessa aukningu að mati Vegagerðarinnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .