Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er sátt um það innan ríkisstjórnarinnar að hækka Tryggingagjald um allt að 1,6% en það leggst á öll laun í landinu. Talið er að slík hækkun muni færa ríkissjóði um 7 milljarða króna í auknar tekjur á þessu ári.

Einnig er ætlun ríkisstjórnarinnar að hækka fjármagnstekjur en í dag eru tekin 10% af öllum fjármagnstekjum. Samkvæmt þeim hugmyndum sem nú er unnið með, og hafa að hluta til verið kynntar aðilum vinnumarkaðarins, er miðað við að fjármagnstekjuskattur verði áfram 10% en geti jafnvel hækkað upp í 14% samkvæmt einhverri stighækkun.

Fjármagnstekjur umfram 5 milljónir skattlagðar eins og tekjuskattur

Um leið hefur verið rætt um að skattleggja allar fjármagnstekjur umfram fimm milljónir króna eins og aðrar tekjur, þ.e.a.s. að greitt verði af þessum tekjum 37,2% tekjuskattur. Ekki er vitað hve miklu það myndi skila í ríkissjóð en ljóst er að margir þeir sem geyma fjármuni á sparisjóðsbókum munu lenda í þessum skatti. Einnig er talið að þetta muni ná til margra þeirra sem njóta arðgreiðslna núna.

Eins og komið hefur fram hefur verið rætt um að setja 8% hátekjuskatt á og miðast hann við tekjur umfram 750 þúsund krónur eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst. Það myndi hafa í för með sér að skattgreiðandi með eina milljón króna í tekjur á ári þarf að greiða 20 þúsund krónur meira í skatt.

Reiknað endurgjald hækkað

Einnig er rætt um að hækka reiknað endurgjald til að stemma stigu við að menn geti flutt tekjur sínar yfir í einkahlutafélög og lækkað þannig skattgreiðslur sínar, t.d. með því að taka tekjur í gegnum arð.

Tryggingagjald er 5,19% í dag. Að viðbættu gjaldi í ábyrgðasjóð launa og markaðsgjaldi verður staðgreiðsla þessara gjalda 5,34%. Viðbót vegna sjómanna er 0,65%.

Tryggingagjald er lagt á með lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.  Um er að ræða sérstakt gjald sem launagreiðendum ber að inna af hendi af heildarlaunum launamanna sinna á tekjuári eða af eigin reiknuðu endurgjaldi. Tryggingagjald er almennt innheimt í staðgreiðslu. Tryggingagjald skiptist í almennt tryggingagjald og atvinnutryggingagjald.

Staðgreiðsluprósenta tekjuskatts hækkar um 1,48 prósentustig frá árinu 2008 og er nú 37,2%. Persónuafsláttur hækkar um 24% milli áranna 2008 og 2009 og er nú 42.205 kr. á mánuði.