Í kjölfar stefnumótunarvinnu sem fram hefur farið innan TM að undanförnu hafa nokkrar breytingar orðið á skipuriti félagsins. Nýju skipuriti er ætlað að styðja við stefnumörkun félagsins og framtíðarsýn. Ennfremur er því ætlað að skjóta styrkari stoðum undir frekari vöxt á erlendum mörkuðum og skerpa aðgreiningu TM á Íslandi, segir í tilkynningu frá félaginu.

Forstjóri TM, Sigurður Viðarsson, kynnti nýja skipuritið á fundi með starfsmönnum í dag. Samkvæmt því verður starfsemi fyrirtækisins á sex sviðum, þremur kjarnasviðum; einstaklingsþjónustu, fyrirtækjaþjónustu, fjárfestingum og viðskiptaþróun og þremur stoðsviðum; tjónaþjónustu, fjármála-og rekstrarsviði og samskiptasviði.

Breytingarnar fela meðal annars í sér að í stað vátrygginga- og fjármálaþjónustu verða til tvö svið; einstaklingsþjónusta og fyrirtækjaþjónusta.

Þau munu bera ábyrgð á að veita viðskiptavinum TM víðtæka vátrygginga- og fjármálaþjónustu ásamt því að leiða vöruþróun félagsins.

Framkvæmdastjóri einstaklingsþjónustu er Ragnheiður Agnarsdóttir, en hún var áður framkvæmdastjóri vátrygginga- og fjármálaþjónustu.

Framkvæmdastjóri fyrirtækja¬þjónustu TM er Hjálmar Sigurþórsson, sem áður var framkvæmdastjóri tjónaþjónustu. Hjálmar verður jafnframt staðgengill  forstjóra.

Fjárfestingar og viðskiptaþróun, sem áður hét fjárfestingar, mun bera ábyrgð á fjárfestingum félagsins og rekstri dótturfélaga. Sigurður Viðarsson forstjóri TM stýrir því sviði.

Tjónaþjónusta ber ábyrgð á allri tjónaþjónustu við viðskiptavini félagsins. Framkvæmdastjóri tjónaþjónustu er Kjartan Vilhjálmsson.

Fjármála- og rekstrarsvið ber ábyrgð á reikningshaldi, greiðsluþjónustu, hagdeild og skrifstofuumsjón ásamt því að stýra hugbúnaðargerð og tölvuþjónustu. Framkvæmdastjóri sviðsins er Óskar B. Hauksson, sem áður var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.

Nýtt svið, samskiptasvið, fær það hlutverk að tryggja samþættingu innri og ytri samskipta og markaðssetningar félagsins. Í því felst meðal annars samræming markaðs- og kynningar¬mála, mannauðsmála og þjónustu á þjónustustöðvum TM um land allt. Framkvæmdastjóri sviðsins er Ragnheiður Agnarsdóttir.  Lögfræðiþjónusta og innra eftirlit munu heyra beint undir forstjóra félagsins.

Framkvæmdastjórn TM

Sigurður Viðarsson tók við starfi forstjóra Tryggingamiðstöðvarinnar þann 9. október síðastliðinn. Sigurður er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og starfaði áður hjá Kaupþingi líftryggingum, þar sem hann gegndi starfi forstöðumanns fjármála- og vátryggingarsviðs ásamt því að vera staðgengill forstjóra.

Ragnheiður Agnarsdóttir er framkvæmdastjóri einstaklingsþjónustu og samskipta¬sviðs. Hún gegndi áður starfi framkvæmdastjóra vátrygginga- og fjármálaþjónustu.  Ragnheiður hefur starfað hjá TM frá árinu 2006, fyrst sem forstöðumaður einstaklingsþjónustu en svo sem framkvæmdastjóri vátrygginga- og fjármálaþjónustu. Á árunum 2001-2006 starfaði hún sem stjórnunarráðgjafi hjá ParX viðskiptaráðgjöf IBM og forverum þess (PWC og IBM). Ragnheiður er með BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands og vinnur að meistaraverkefni í mannauðstjórnun við viðskipta- og hagfræðideild sama skóla.

Hjálmar Sigurþórsson er framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu TM. Hjálmar hefur starfað hjá félaginu síðan 1988, nú síðast sem framkvæmdastjóri tjónaþjónustu. Hjálmar mun ljúka MBA prófi frá Háskólanum í Reykjavík í maí 2008.

Kjartan Vilhjálmsson er nýr framkvæmdastjóri tjónaþjónustu TM. Kjartan hefur starfað innan tjónaþjónustu TM frá árinu 2005, fyrst sem lögfræðingur og síðan sem deildarstjóri. Kjartan lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 2005 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 2006.

Óskar B. Hauksson er framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs TM. Óskar stýrði rekstrarsviði félagsins áður. Þar áður starfaði hann meðal annars sem framkvæmdastjóri  upplýsingatækni- og þróunarsviðs Og Vodafone og sem forstöðumaður upplýsingavinnslu Eimskipa. Hann starfaði einnig sem framkvæmdastjóri EAN á Íslandi. Óskar er menntaður verkfræðingur og tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands auk þess sem hann er með MBA gráðu frá Oxford háskóla.