Tryggvi Jónsson hefur fest kaup á ríflega 28% hlutabréfa í Humac ehf., sem á og rekur Apple á Íslandi og á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í tilkynningu. Kaupverðið er ekki gefið upp en Sanderson ehf., sem er félag í eigu Tryggva, kaupir út hluthafana F. Bergsson, Holding ehf. og Hlunn ehf.

Að loknum þessum viðskiptum eru Sanderson ásamt Baugi og Grafít ehf. stærstu hluthafarnir í Humac með samtals um 87% hlutdeild í félaginu.

Í tilkynningunn segir jafnframt að Tryggvi Jónsson mun taka sæti í stjórn félagsins. Þórdís Sigurðardóttir er formaður stjórnar og aðrir stjórnarmenn eru Árni Pétur Jónsson og Þormóður Jónsson. Framkvæmdastjóri Humac er Bjarni Ákason.

"Humac er stærsti sölu- og dreifingaraðili Apple í Norður-Evrópu með 19 verslanir í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi. Velta fyrirtækisins árið 2006 var um um 6 milljarðar króna og gert er ráð fyrir að velta þessa árs verði um 9 milljarðar króna. Á þriðja hundrað starfsmenn eru hjá Humac/Apple í löndunum fimm. Ekki eru fyrirhugaðar neinar breytingar á rekstri félagsins en stefnt er að fjölgun verslana á næstu misserum," segir í tilkynningu.

Um ástæður kaupanna segir Tryggvi Jónsson: ?Apple hefur aukið umsvif sín verulega á undanförnum árum eða síðan Steve Jobs, einn stofnanda fyrirtækisins, kom þar aftur til starfa. Apple tölvum vex stöðugt ásmegin í samkeppni á einkatölvumarkaðnum og iPod spilarinn, sem selst hefur í milljónum eintaka um allan heim á jafnframt mikinn þátt í velgengni síðustu ára. Í lok þessa mánaðar má gera ráð fyrir að byltingarkenndur farsími, iPhone, komi á markað í Bandaríkjunum og vafalítið mun hann einnig bjóðast á Evrópumarkaði og annars staðar í heiminum innan skamms tíma. Humac/Apple er í leiðandi hlutverki á norrænum markaði og ég er sannfærður um að félagið hefur mikil tækifæri til vaxtar á næstu misserum og árum.?